KARAKTERARNIR

GANDUR HINN DJÚPI

Gandur er furðulegur hrútur. Þessi sérvitri sérvitringur er afar dularfullur. Enginn veit fyrir víst hvað hann er gamall, en margir telja að hann sé örugglega 100 ára. En látið ekki blekkjast þó að hann sé svona hrikalega gamall og utan við sig; hann er rammgöldróttur og slyngur náungi með ráð undir rifi hverju. Við öllum spurningum lífsins virðist hann kunna svör, en svörin koma oft í formi orðatiltækja eða málshátta. Mörgum finnst hann full djúpur og kalla hann Gandur hinn djúpi. Galdrahrúturinn er afar glaðlyndur með ríka réttlætiskennd. Hann hlær upphátt og talar mikið, líka þegar hann er einn. En kannski er hann ekki að tala við sjálfan sig, heldur tréin, dýrin og steinana. Allt umhverfið bregst glaðlega við þegar Gandur fer um og sögur segja að hann geti fengið allt í náttúrunni með sér í lið þegar hann þarf að láta til sín taka. Hann nýtur sín samt alltaf best í fjallaloftinu og býr í hlíðum Rístinda í gömlum torfbæ.

Hann hefur á langri ævi sinni farið um allan Freyjuheim, og víðar. Hvar sem hann kemur hefur hann birst eins og hvirfilbylur og hjálpað þeim sem minna mega sín og oftar en ekki horfið aftur í hvirfilbyl jafn óvænt og hann birtist. Þannig kynntist Gandur refastelpunni Míu þegar hún var í vandræðum með úrilla risaeðlu og einnig Skotta og félögum þegar hann bjargaði þeim frá hinum illa Stormi Staurfæti. Heyrst hefur að Gandur geti galdrað sig yfir í mannheima þar sem hann fylgist með furðuverunum sem kalla sig mannfólkið. Vonandi er Gandur hinn djúpi sá sem loks getur hjálpað Freyju aftur heim.

STORMUR STAURFÓTUR

Það var stormur í aðsigi þegar hákarlinn ógurlegi, Stormur Staurfótur, kom sem stormsveipur inn í líf Skotta og félaga. Skotti, Mía, Freyja og Huppa voru á siglingu í átt að víddarhliðinu þegar Stormur Staurfótur sökkti skipi þeirra og kippti Skotta um borð í sjóræningjaskipið. Stormur Staurfótur er alráður á sjóræningjaskipinu en undirmenn hans eru eineygður rostungur, staurfættur kolkrabbi, einhent skjaldbaka og útbitinn píranafiskur. Stormur Staurfótur er ekkert lamb að leika sér við, hann er stormsamur og þrjóskur en um leið fremur klaufskur... tekst Skotta og félögum að komast undan ógnvænlega hákarlinum Stormi Staurfæti?

BASTÍAN

Bastían er risastór og vel vöðvuð kanína sem er meinilla við að sitja auðum höndum, en foreldrar hans voru af fornum, lúsiðnum og nær horfnum ættum Risakanína sem vöfruðu um Freyjuheim hér í árdaga. Það er kannski þess vegna sem að hann er strangur en sanngjarn, verkstjóri á risastórum nammiakri þar sem töluvert minni undirmenn (eða undirkanínur) hans uppskera Djúpur af miklum móð og koma þeim til Nammihliðs herra Sælgætíusar, sem aftur sendir þær svo yfir í Mannheima.

SAMÍRA

Einu sinni hét Samíra ekki Samíra, heldur Gullveig. Og einu sinni var Samíra ekki tignarleg talandi læða og drottning Sandala á tveimur fótum, heldur ósköp venjulegur svartur heimilisköttur. Kötturinn hennar Freyju, nánar tiltekið. Þetta breyttist allt þegar þær vinkonurnar féllu saman í gegnum dularfullt víddarhlið sem fluttu þær úr Mannheimum yfir í Freyjuheim. Þetta ferðalag umbreytti Gullveigu semsagt, hún tók sér nafnið Samíra, og kleif merkilega hratt upp metorðastigann í hinu sólríka eyðimerkurríki Sandala. Hún er stolt, hún er eldklár, og hún fer hvergi án lífvarðarins og sverðtígursins síns, sem gætir hennar af stakri grimmd.

MÍA REFASTELPA

Þessi reffilega refastelpa kom eins og stormsveipur inn í líf Skotta, Freyju og Huppu á ögurstundu. Mía er, merkilegt nokk, prinsessa, dóttir Úkúlele, konungs Mæ-jæja fólksins. Eftir að hafa alist upp í dekruðum vellystingum hafnaði hún efnislegum gæðum og gullslegnu glamúrlífi pýramídanna. Mía er harðgerð, ákveðin, og umfram allt, villt. Ekki villt í merkingunni að hún viti ekki hvert hún sé að fara, alls ekki, heldur villt eins og hún hafi snúið baki við siðmenningunni og búi í óbyggðunum í sátt við náttúruna. Eða eins og hún segir sjálf: Ég fann loks frið innra með mér þegar ég yfirgaf allt sem ég þekkti og hélt inn í þennan villta og frjálsa frumskóg. Hann er endurspeglun af sjálfri mér.“

SKOTTI

Skotti er mjög lífsglaður en ekkert sérstaklega blíður einstaklingur. Hann er ennfremur ákaflega sjálfstæður og eiginlega bara frekar sjálfselskur og hefur verið alla sína hunds- og kattartíð. Hann var til að mynda hrokafyllsti kettlingur sem fóstrurnar á Katthæðum, munaðarleysingjahælinu sem hann endaði reyndar með að strjúka frá, muna eftir. En fyrir utan að hafa mikinn áhuga á sjálfum sér er Skotti heillaður af töffaraskap. Þannig er hann sjálfskipaður töffari og er mikill lífskúnstner og stendur sig alveg hreint prýðilega sem slíkur og undir þeirri nafngift. Enda er Skotti vanur að fá það sem hann vill, á einn eða annan hátt.

FREYJA

Freyja er ákaflega indæl ung stúlka úr Mannheimum með mikið keppnisskap sem er jafn hugrökk og hún er forvitin. Orðin "indæl" og "hugrökk" og "forvitin" eru mjög athyglisverð blanda, sérstaklega þegar þau líkamnast jafn hressilega og í henni Freyju. Freyja er nefnilega stelpa sem hlýðir foreldrum sínum næstum því alltaf, gengur vel í skólanum og er mjög dugleg í íþróttum. Hún á það hins vegar til að koma sér í svolítið erfiðar aðstæður. Eins og þegar hún datt í gegnum dularfullt víddarhlið og festist í Freyjuheimi. Núna reynir hún örvæntingarfullt að finna leiðina heim aftur.

HUPPA

Huppa hefur einstaklega gaman af jaðaríþróttum eins og fossaklifri og fallhlífarstökki. Í rauninni öllu sem gæti flokkast sem fífldirfska. Einhver myndi ef til vill segja að öll þessi fífldirfska hennar stafaði af því að hún væri svolítið mikill kjáni, og eflaust væri það rétt. Huppa er hins vegar líka afskaplega hrein og góð sál sem myndi aldrei gera flugu mein og er vinur vina sinna. Sést það best á því þegar hún bjargaði Ögmundi önd úr bráðum lífsháska og tók hann upp á sína arma. Ögmundur unir hag sínum upp frá því alveg ágætlega í bakpokanum hjá Huppu, þar sem hann dvelst flestum stundum, og fylgir henni í ævintýrum hennar og kjánaskap.